*

mánudagur, 18. janúar 2021
Frjáls verslun 3. mars 2019 18:01

Fólk á uppleið IV

Frjáls verslun birtir lista yfir tæplega 60 Íslendinga, sem eru á uppleið í atvinnulífinu í nýju tímariti sem var að koma út.

Ritstjórn

Í tímariti Frjálsrar verslunar, sem var að koma út, er ljósi varpað á tæplega sextíu Íslendinga, sem hafa verið á uppleið í atvinnulífinu undanfarin misseri. Lögð er áhersla á yngra fólk og til marks um það er meðalaldurinn rétt rúmlega 37 ár. Á listanum eru 29 konur og 27 karlar. Í hópnum er fólk sem starfar í hinum ýmsu atvinnugreinum þjóðfélagsins eins og ferðaþjónustu, viðskiptalífi, verslun, byggingageiranum, sem og fólk sem hefur gert það gott í nýsköpun.

Frjáls verslun fékk valinkunnan hóp sérfræðinga til að tilnefna fólk á listann en þau eru: Andrés Jónsson, almannatengill og eigandi Góðra samskipta, Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir, ráðgjafi hjá Aton, Einar Gunnar Guðmundsson, forsvarsmaður nýsköpunar í Arion banka og einn af upphafsmönnum Startup Reykjavík, Friðjón R. Friðjónsson, almannatengill og einn eigenda KOM, Heiðar Guðjónsson fjárfestir, Katrín S. Óladóttir, annar eigenda Hagvangs og Hrafnhildur Hafsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA ) .

Hér fyrir neðan má sjá brot af þeim einstaklingum sem eru á listanum.

Kristrún Mjöll Frostadóttir (30)

  • Kristrún Mjöll Frostadóttir gegnir nú stöðu aðalhagfræðings Kviku banka. Hefur hún gegnt starfinu í rúmlega ár. Þar á undan starfaði hún sem hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands í eitt ár. Kristrún kom til Viðskiptaráðs frá bandaríska fjárfestingarbankanum Morgan Stanley, þar sem hún var sérfræðingur í greiningardeild, fyrst í New York og síðan í London. Kristrún hefur einnig unnið í greiningardeild Arion banka og sem blaðamaður á Viðskiptablaðinu. Hún er með meistaragráðu í alþjóðafræðum frá Yale-háskóla í Bandaríkjunum og meistaragráðu í hagfræði frá Boston-háskóla. Þá er hún með B.Sc.-gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands.

Kristinn Árni Lár Hróbjartsson (29)

  • Kristinn Árni Lár Hróbjartsson er stofnandi og ritstjóri nýsköpunarvefsins Northstack. Hann er einnig framkvæmdastjóri rekstrar hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Gangverki. Hann var áður ráðgjafi hjá Kolibri og forstöðumaður rekstrar hjá QuizUp. Kristinn Árni skrifaði og gaf út bókina Litla herramennskukverið árið 2011, en útgáfan var greidd í gegnum hópfjármögnun. Kristinn Árni er með B.Sc. gráðu frá Háskóla Íslands og var skiptinemi í Texas Tech University.

Linda Jónsdóttir (42)

  • Linda Jóndóttir hefur gegnt stöðu fjármálastjóra hjá Marel síðastliðin fimm ár. Hún er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og kláraði framhaldsnám í fjármálum fyrirtækja við Háskólann í Reykjavík. Linda hóf starfsferilinn hjá Eimskip en gekk svo til liðs við Burðarás þegar það félag var stofnað árið 2003. Hún starfaði áfram í nýjum fjárfestingabanka Straumi Burðarás sem varð til við sameiningu Burðaráss og Straums 2005 fram til ársins 2009. Sama ár hóf hún störf hjá Marel á sviði fjárfestingatengsla en frá árinu 2014 hefur hún gegnt stöðu fjármálastjóra fyrirtækisins. Hún situr í stjórn Viðskiptaráðs og var stjórnarmaður í Framkvæmdasjóði Íslands á árunum 2010-2015.  

Nánar má lesa um „Fólk á uppleið" í nýju tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að kaupa tölublaðið hér eða gerast áskrifandi hér.