Stærstu kröfuhafar Fons, félags Pálma Haraldssonar, eiga veð í ýmsum eignum þrotabúsins. Íslandsbanki á til að mynda veð í Plastprenti og Landsbankinn á veð í Securitas. Fons er sem kunnugt er í gjaldþrotameðferð.

Forsvarsmenn félagsins halda því fram í gögnum sem lögð hafa verið fram í héraðsdómi að skuldir umfram eignir séu um 20 milljarðar.

Forsvarsmenn Fons telja að eignir í íslenskum og erlendum hlutafélögum séu metnar á um 6,5 milljarða króna. Þá eigi þeir innstæður og verðbréf upp á 11,8 milljarða. Aukinheldur innlend og erlend markaðsbréf upp á 897 milljónir króna.

Helstu eignir Fons eru hundrað prósenta hlutur í Securitas og fimmtíu prósenta hlutur í Plastprent. Þá á Fons 29,26% í norrænu ferðaskrifstofunni Ticket og hlut í bresku leikfangakeðjunni Hamleys sem og lítinn hlut í Iceland Express.

Fons á líka um 17% í 365 hf., þ.e.a.s. Íslenskri afþreyingu, sem og hlut í Rauðsól (seinna nefnt Ný sýn og enn síðar Sýn) sem á 365 miðla, sem eiga og reka m.a. Fréttablaðið, Stöð 2 og Bylguna.

Eftir því sem næst verður komist keypti Fons hlut í Rauðsól fyrir 350 milljónir króna en ekki hefur fengist staðfest hvenær nákvæmlega þau kaup fóru fram. Ef marka má frétt á vefmiðlinum Pressan, sem ritstýrt er af Birni Inga Hrafnssyni, er hlutur Fons í Rauðsól og þar með 365 miðlum talinn vera 23%.

Félagið Rauðsól var stofnað á haustmánuðum 2008 til að kaupa fjölmiðlahluta 365 hf.

Leiðrétting: Í umfjöllun um Fons í Viðskiptablaðinu í dag var vegna mistaka í prófarkalestri sagt að Íslensk afþreying ætti hlut í Rauðsól. Það er ekki rétt og leiðréttist það hér með.