Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, segir í eiðsvörnum vitnisburði sínum í máli slitastjórnar gegn “klíku” Jóns Ásgeirs Jóhannessonar að það sé “ekki ólíklegt að hann sé ennþá ríkur”. Hún segist hafa ástæðu til þess að ætla að hann eigi eða ráði yfir miklu reiðufé sem er á reikningum í breskum bönkum.

For your eyes only

Vitnar hún í því samhengi í tölvupóst sem alþjóðlega rannsóknarfyrirtækið Kroll komst yfir við rannsókn sín á málefnum Glitnis fyrir hrun hans í október 2008. Hinn 22. september, 15 dögum fyrir hrun Glitnis, sendi Jón Ásgeir tölvupóst til Lárusar Welding og Jóns Sigurðssonar með fyrirsögninni; For your eyes only, eða aðeins fyrir ykkur. Í póstinum var jpg-myndskjal sem sýnir yfirlit yfir bankareikninga í bönkunum HBOS, Barclays, Alliance & Leicester, HSBC og Bank of Ireland. Á þessum reikningum var samtals 202.474.420 pund, eða sem nemur rúmlega 41 milljarði króna miðað við núverandi gengi. Steinunn tekur þó fram í vitnisburði sínum að hún geti ekki sagt til um hvort þessir reikningar tilheyra Jóni Ásgeiri eða fyrirtækjum sem hann tengist.

Verjast kröftuglega

Jón Ásgeir og hinir sem mál slitastjórnar Glitnis beinist gegn hafa allir mótmælt kröftuglega stefnu Glitnis og skilja ekki hvers vegna málið er rekið fyrir dómstólum í New York. Hinir sem slitastjórnin hefur stefnt eru Pálmi Haraldsson, Hannes Smárason, Þorsteinn M. Jónsson, Jón Sigurðsson, Lárus Welding og Ingibjörg Pálmadóttir, eiginkona Jóns Ásgeirs. Öll krefjast þau þess að málinu verði vísað frá.