Talið berst að hlutfalli kvenna í stjórnunarstöðum en eins og margoft hefur verið fjallað um bera konur vægast sagt skarðan hlut frá borði þegar kemur að forstjórastöðum í skráðum félögum þar sem engin kona hefur setið frá árinu 2016.

„Engin kona gegnir forstjórastöðu í skráðu félagi á Íslandi, og hefur ekki gert síðan 2016 og þá er gott að spyrja sig hvort það sé tilviljun og líka velta fyrir sér hvernig við erum að taka á móti konum sem eru menntaðar út fyrir ósónlagið. Jafnréttið átti að koma með kosningarétti, svo með menntun en það hallar enn á konur," segir Andrea Róbertsdóttir, framkvæmdastjóri Félags kvenna í atvinnulífinu.

„Raunveruleika kvenna verður að taka með í reikninginn til dæmis þegar verið er að hanna infrastrúktúr framtíðarinnar. Í starfi mínu sem framkvæmdastjóri FKA má kannski segja að ég sé hluti af gjörningaklúbbi og í rauninni að þjónusta atvinnulífið þar sem við höfum verið að draga fram konur sem að vilja vera í stjórnum, koma fram og vita að sterkari erum við saman.

Ég trúi á þetta samtal vegna þess að stjórnendur í íslensku atvinnulífi eru ofboðslega hlaðnir og það gefst oft lítill tími til þess að stækka mengið. Ég fagna því að sjá Samtök atvinnulífsins og stoðir atvinnulífsins séu farin að slá ákveðinn tón enda er öllum orðið ljóst að jafnréttið gerist ekki af sjálfu sér.

Í FKA erum við með lista af konum sem vilja vera í stjórnunarstöðum, stjórnum og koma fram í fjölmiðlum með sína sérfræðiþekkingu. Það er þvílík gjöf að fá að gegna þessari stöðu að vera límið og vængir fyrir þessar konur,“ segir Andrea sem hvetur konur til að sækja um stöður sem heilla í öllum geirum.

„Konur telja sig oft þurfa að vera með 11 af 10 mögulegum til þess að sækja um á meðan karlar eru mun djarfari að sækja um þó þeir tikki ekki í öll boxin. Ég myndi segja að þær konur sem finni sig þeim sporum þurfi að lesa atvinnuauglýsinguna og láta slag standa. Þær þurfa hins vegar að hafa stuðning heiman frá sér til að taka þessi verkefni að sér. Það þarf nefnilega einhver að sinna launalausri rekstrarstöðu heimilisins með stæl á meðan.

Ég frábið mér fórnarlambakenningar um að konur séu ekki nógu duglegar við að sækja um störf, biðja um launahækkun og annað á þá leið. Við þurfum að byrja að rýna uppeldið og horfa á þetta ofanfrá. Það er mikilvægt fyrir okkur öll að muna að við erum að ala upp vin, félaga, samfélagsþegn, starfsmann, vin og maka o.s.frv. Það er ákveðið foreldravandamál í gangi.

Stelpum er hrósað fyrir að vera góðar, duglegar og sætar á meðan strákum er hrósað fyrir að vera sterkir og kjarkaðir. Við þurfum því að segja stopp og vera ekki að láta komandi kynslóðir erfa það kynjaða bull sem er enn til staðar. Þetta er margþætt. Ólaunuð störf innan heimilisins og að annast aldraða er líka oft á herðum kvenna og annað í þessu samhengi.“

Nánar er rætt við Andreu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .