*

fimmtudagur, 18. júlí 2019
Innlent 26. júní 2018 15:31

Forlagið enn í markaðsráðandi stöðu

Samkeppniseftirlitið hefur úrskurðað að þau skilyrði sem samruna JPV útgáfu og Vegamóta voru sett gildi áfram.

Ritstjórn
Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins.
Haraldur Guðjónsson

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um beiðni Forlagsins ehf. um endurupptöku ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins um samruna JPV útgáfu ehf. og Vegamóta ehf. er fjallað um beiðni Forlagsins ehf um að fallið verði frá skilyrðum sem sett voru við samrunann. Við þann samruna varð Forlagið til í núverandi mynd sem öflugasta bókaútgáfa landsins og voru skilyrðin sett til að eyða skaðlegum áhrifum samrunans á samkeppni. 

Forlagið hefur óskað eftir að skilyrðin verði felld úr gildi eða dregið úr þeim. Hefur Forlagið mótmælt skilgreiningu markaðarins í málinu og mati á hlutdeild félagsins. Þá telur Forlagið að ákvörðunin hafi byggst á röngum forsendum, að aðstæður hafi breyst og einnig að skilyrðin íþyngi félaginu í rekstri. 

Athugun Samkeppniseftirlitsins á bókamarkaðnum núna sýnir að staða Forlagsins hefur ekki breyst í meginatriðum á liðnum árum. Forlagið er enn stærsta bókaútgáfan á Íslandi með 45-50% hlutdeild í almennri bókaútgáfu og er með um það bil fjórfalt meiri hlutdeild en sá útgefandi sem næst kemur að stærð sem er Bjartur-Veröld. Þá er Forlagið með mikla breidd í útgáfu samanborið við flesta aðra bókaútgefendur. Er það því niðurstaðan í ákvörðun eftirlitsins að Forlagið sé ennþá í markaðsráðandi stöðu á bókamarkaði. 

Samkeppniseftirlitið telur því mikilvægt að skilyrðin sem snúast aðallega um að Forlagið beiti ekki styrk sínum gagnvart keppinautum og skaði þannig samkeppni, gildi áfram. Skiptir líka máli að meirihluti keppinauta sem tók þátt í könnun eftirlitsins telja að skilyrðin hafi stuðlað að aukinni samkeppni og að ekki séu forsendur til að fella þau úr gildi að hluta til eða öllu leyti. Þá telur eftirlitið að Forlagið hafi ekki rökstutt hvernig skilyrðin setji félaginu í raun skorður og hvaða áhrif það hafi fyrir það og aðra ef þau yrðu felld niður. 

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is