Seðlabankinn vildi lækka stýrivexti strax í byrjun árs en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn stöðvaði það eftir hvatningu frá  formanni Samfylkingarinnar, sagði Davíð Oddsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og Seðlabankans, í ræðu sem hann flytur nú á landsfundi Sjálfstæðisflokksins.

Davíð sagði að bankastjórnin hefði sagt við fulltrúa AGS að „við [værum] bæði með belti og axlabönd. Við búum í kjallaranum og þið heimtið að við göngum með fallhlíf."

Davíð gagnrýndi nýjan Seðlabankastjóra, Samfylkinguna og útrásarvíkingana harðlega í ræðunni. Mikið var hlegið og klappað undir ræðunni og í lokin risu landsfundarfulltrúar úr sætum og hylltu hann með kröftugu lófaklappi.

Nokkrir fundarmenn gengu þó út undir ræðunni þ.e. þegar hann vék að endurreisnarnefndinni.

Ekki einu sinni Google þekkti norska seðlabankastjórann

Davíð sagði að útrásarvíkingar sem sett hefðu Ísland á hliðina hefðu átt sameiginlega eina ósk, bara eina ósk. Hún væri sú að koma Davíð Oddssyni úr Seðlabankanum. Þessa ósk hefði vinstri stjórnin flýtt sér að uppfylla. „Væntanlega  í þakklætisskyni við víkingana fyrir vel unnin störf í þjóðarþágu."

Davíð sagði að ráðinn hefði verið til Seðlabankans lausamaður úr norska verkamannaflokknum sem ekki nokkur maður hefði heyrt minnst á ekki einu sinni Google „sem þekkir þó marga."

Spássitúr Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, um Seðlabankann eins og hann ætti hann hefði verið ein ósmekklegasta uppákoman sem sést hefði hér á landi af hálfu erlends fyrirmanns.

Vildi dreifða eignaraðild

Davíð vék meðal annars að einkavæðingu bankanna og sagði að þeir sem tilheyrðu nú Samfylkingunni hefðu mælt á móti dreifðri eignaraðild. Nefndi hann þar m.a. til sögunnar Sighvat Björgvinsson og Ástu R. Jóhannesdóttur. Sjálfur hefði hann lagt áherslu á og mælt með dreifðri eignaraðild.

Því væri furðulegt að ráðast á Sjálfstæðisflokkinn og halda því fram að hann hefði lagt dreift eignarhald til hliðar.

Sigmundur Ernir hefði verið að færa sig til innan samstæðunnar

Davíð spyrti Samfylkinguna við útrásarvíkingana og Baug og vék að því þegar Sigmundur Ernir Rúnarsson hætti hjá 365 og gaf kost á sér í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðaustur kjördæmi. Davíð sagði að starfsmaður fjölmiðilsins hefði orðað það sem svo Sigmundur Ernir væri einungis að færa sig til innan samstæðunnar.

Davíð fjallaði einnig um fjölmiðlalögin og sagði að eyðilegging þeirra hefði verið hið mesta pólitíska skemmdarverk sem unnið hefði verið í síðari tíma sögu Íslands.

Davíð beindi einnig spjótum sínum að Vilhjálmi Egilssyni, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins og skýrslu endurreisnarnefndarinnar. Hann sagði að það lýsti athyglisverðri kímnigáfu að fela manninum sem ráðinn hefði verið af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Hannesi Smárasyni og Hreiðari Má Sigurðssyni til að stýra Samtökum atvinnulífsins að undirbúa nýjar siðareglur fyrir sjálfstæðismenn.

Davíð sagði að hin svokallaða endurreisnarskýrsla væri mikil hrákasmíð, illa samin og full af rangfærslum. „Ég sé mikið eftir þeim fallega trjágróðri sem felldur hefur verið til að prenta þetta plagg í stóru upplagi."