Helgi Magnússon, formaður Samtaka iðnaðarins, telur að atvinnustigið í landinu sé á hraðri niðurleið, hraðar en mælingar nái enn að sýna. Þetta segir hann í samtali við helgarblað Viðskiptablaðsins. Hann segir að draga kunni til tíðinda í haust. Nú sé háannatími hjá mörgum fyrirtækjum, s.s. í byggingariðnaði og ferðaþjónustu en í september eða október megi búast við minni umsvifum. Samkvæmt Hagstofu Íslands var atvinnuleysi 3,1% á öðrum ársfjórðungi þessa árs.

„Uppsagnir eru víða í gangi en þær taka ekki gildi fyrr en eftir þrjá mánuði eða meira," segir hann. „Við höfum eitthvað heyrt af fjöldauppsögnum hjá fjölmiðlum en ég held að það sé meira um það að fyrirtæki séu í tiltekt hjá sér og séu að fækka starfsmönnum eins og þau treysta sér til. Það séu að detta út menn í einni og einni deild og ekki ráðið í staðinn fyrir þá sem hætta eða fara í veikindaleyfi."

Þegar hann er spurður hvernig hann sjái fyrir sér ástandið eftir hálft ár, miðað við óbreytta stýrivexti og fleira, segir hann: „Ég vil varla hugsa um það - það ræðst af því hvað verður tekið til bragðs á næstunni. Ég tel að það sé borin von að hér geti orðið öflugt og blómlegt atvinnulíf ef áfram er keyrt á þessum stýrivöxtum. Lykilatriðið er að þeir verði lækkaðir og að bankarnir geti farið að veita eðlilega þjónustu."