Þann 1.október sameinaðist Formfast ehf. Prentsmiðjunni Odda.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Odda en Formfast var stofnað árið 2006 og hefur sérhæft sig í formhönnun, framleiðslu á umbúðum úr kartoni og bylgjupappa. Fyrirtækið hefur meðal annars sérframleitt umbúðir í litlu upplagi og vörustanda. Meðal viðskiptavina þess hafa verið hönnuðir, auglýsingastofur og ýmis framleiðslufyrirtæki.

Fram kemur í tilkynningunni að með sameiningu fyrirtækjanna bætist umbúðaráðgjöf er varðar formhönnun við vöru- og þjónustuval Odda.

Að sögn Jóns Ómars Erlingssonar framkvæmdastjóra Odda styrkir sameiningin stöðu Odda á umbúðamarkaði og gerir fyrirtækinu kleift að bæta enn þjónustu sína við stóra og smáa viðskiptavini.

„Okkar leiðarljós hefur verið að ekkert verk er of stórt fyrir okkur og að sama skapi eru engin verk of smá. Mikið ánægjuefni er að fá til liðs við okkur einn öflugasta umbúðahönnuð landsins Snorra Má Snorrason og með tilkomu hans getum við veitt enn betri þjónustu við viðskiptavini okkar,“ segir Jón Ómar í tilkynningunni.