Í dómi Héraðsdóms Reykjaness sem féll sl. þriðjudag er fallist á það að efnahagshrunið haustið 2008 hafi falið í sér forsendubrest og því þurfi verksamningar að taka tillit til þess. Í dómnum féllst fjölskipaður dómur á það að forsendur fyrir tilboð í sundlaug á Álftanesi, sem var óverðbætt á verktímanum, hafi brostið vegna „efnahagsástandsins á árinu 2008“, þ.e. hruni krónunnar og hárrar verðbólgu með tilheyrandi áhrifum á byggingakostnað. Þetta er fyrsti dómurinn sem fellur eftir bankahrunið 2008 þar sem tekið er undir það í dómi að efnahagshrunið geti falið í sér forsendubrest í samningum.

Dómarar í málinu voru héraðsdómararnir Ástríður Grímsdóttir og Jón Höskuldsson, ásamt Kristni Eiríkissyni byggingaverkfræðingi. Sundlaugin á Álftanesi Íslenskir aðalverktakar höfðuðu mál gegn Fasteign hf. vegna uppgjörs á samningi sem gerður var í tengslum við byggingu sundlaugar á Álftanesi og íþróttamannvirkja í næsta nágrenni. Fallist var á þá kröfu Íslenskra aðalverktaka að félagið fengi greiddar verðbætur á samning vegna byggingar sundlaugarinnar. Var Fasteign hf. dæmt til þess að greiða 112 milljónir króna og þar af nema verðbæturnar í dómnum 105 milljónum. Deilan snérist því um hvort víkja ætti samningsákvæði um engar verðbætur til hliðar. Í dómnum segir m.a.: „Verður því að taka undir þau sjónarmið aðalstefnanda að forsenda hans fyrir 3. gr. samningsaðila hafi verið stöðugt verðlag á meðan á verktímanum stæði, en vegna þeirra miklu hækkana á byggingarvísitölu og gengi íslensku krónunnar hafi forsendur allar brostið fyrir samþykki þess að fjárhæðir tilboðsins á verktímanum væru ekki verðbættar. Þar sem slíkar hækkanir urðu á verktímanum sem að ofan eru taldar er því ósanngjarnt að bera hann fyrir sig. Verður krafa aðalstefnanda um að víkja 3. gr. verksamningsins til hliða tekin til greina.“

Gísli Tryggvason, Talsmaður neytenda, segir dóminn merkilegan og vel rökstuddan. Hann segist sjálfur líta svo á að efnahagshrunið hafi haft þau áhrif að forsendur margra lánasamninga séu hugsanlega brostnar eins og gert var ráð fyrir í tillögum hans til stjórnvalda í apríl í fyrra. „Það er merkilegt að dómurinn hafi fallist á að það að efnahagshrunið hafi haft þessi áhrif gagnvart verktakanum sem á þarna aðild að málinu. Fyrst svo er þá finnst mér það ekki síður eiga við gagnvart almennum neytendum sem eru með verðtryggð lán. Það verður því spennandi að sjá hvort Hæstiréttur staðfestir þennan dóm. Áhrifin af því geta verið víðtæk.“

Ljóst er að mikið er í húfi ef Hæstiréttur staðfestir að efnahagshrunið geti falið í sér forsendubrest. Verðtryggðir húsnæðislánasamningar Íbúðalánasjóðs og bankanna geta mögulega fallið undir áhrif af þeirri skilgreiningu auk lána í erlendri mynt. Höfuðstóll verðtryggðra lána hefur hækkað mikið vegna verðbólguskotsins sem fylgdi í kjölfar hruns krónunnar.

Nánar í Viðskiptablaðinu