Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson flytur á morgun, þriðjudaginn 1. apríl, fyrirlestur um loftslagsbreytingar og nýjar öryggisógnir á vegum Carnegie Council í New York.

Forseti mun einnig eiga fundi með fjölmörgum sendiherrum hjá Sameinuðu þjóðunum þar sem fjallað verður um framboð Íslands til Öryggisráðsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá skrifstofu forseta.

„Í fyrirlestrinum verður fjallað um þau öryggisvandamál sem birtast munu mannkyni á næstu áratugum ef ekki tekst að koma í veg fyrir varanlegar loftslagsbreytingar. Hinar nýju öryggisógnir munu m.a. stafa af kreppu í vatnsbúskap jarðarinnar, stórfelldri eyðingu ræktaðs lands og fæðuskorti, flóðum og langvarandi þurrkum, fellibyljum og straumi flóttafólks frá þeim löndum og heimshlutum sem verða verst úti,“ segir í tilkynningunni.

Þá mun hluti orkuauðlinda heimsins rýrna verulega og stjórnkerfi og efnahagslíf fjölmargra veikburða ríkja sem og smárra eyríkja riðlast vegna hrikalegra afleiðinga loftslagsbreytinga.

„Forseti mun fjalla um nauðsyn þess að koma í veg fyrir frekari hlýnun loftslags svo forða megi mannkyni frá þessum nýju öryggisógnum. Því verði alþjóðastofnanir eins og Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna að taka þær til umfjöllunar. Hafréttarsáttmálinn sem gerður var í kjölfar landhelgisstríðanna sé ennfremur lærdómsríkt dæmi um hvernig alþjóðasamfélaginð er fært um að takast á við erfið vandamál og leysa þau á farsælan hátt,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

Forseti Íslands mun einnig á morgun og miðvikudaginn 2. apríl eiga fundi með sendiherrum ríkja í Suður-Ameríku og með sendiherrum Norðurlanda og Eystrasaltsríkja hjá Sameinuðu þjóðunum. Á þessum fundum verður fjallað um framboð Íslands til Öryggisráðsins.