Forseti OPEC, Chakib Khelil, sagði á laugardag að olíuverð muni árið 2008 verða á bilinu 80-110 dollarar á tunnu. Þetta kemur fram í frétt Reuters.

Khelil sagði í viðtali við algeríska sjónvarpsstöð, en hann er orkumálaráðherra þar í landi, að OPEC finni fyrir miklum þrýstingi frá mörgum ríkjum sem telja samtökin bera ábyrgð á háu olíuverði. Khelil vill hins vegar meina að hátt verð sé viðbrögð markaðarins við efnahagsvandræðum Bandaríkjanna og lækkandi dollara.

Olíuverð í Bandaríkjunum náði nýrri methæð á mánudaginn, en þá var það 111,8 dollarar á tunnu. Síðan þá hefur það lækkað, vegna væntinga manna um samdrátt í efnahagslífi þar í landi sem myndi leiða til minnkandi eftirspurnar eftir olíu.