Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna, sem haft hefur stjórnarmyndunarumboðið síðan Bjarni Benediktsson skilaði því eftir árangurslausar stjórnarmyndunarviðræður mun hitta forsetann núna klukkan 10 á Bessastöðum.

Á miðvikudaginn sleit Katrín árangurslausum stjórnarmyndunarviðræðum fimm flokka og átti hún í gær fund með Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands þar sem farið var yfir stöðuna.

Notaði hún gærdaginn til að ræða við formenn annarra flokka, en hún sagði í samtali við mbl.is í gær að fáir kostir væru í stöðunni.

Forsetinn mun ræða við fjölmiðla klukkan 11 í dag, en Katrín hóf daginn á fundarhöldum með þingflokki Vinstri grænna klukkan 9 í morgun.