Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði í ræðu á alþjóðlegu málþingi í London í morgun að kostirnir við að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil væru fleiri en gallarnir.

Hann sagði enn fremur að breytingarnar á gengi íslensku krónunnar hefðu verið óhjákvæmilegar. Krónan væri líklega veikari en hún ætti skilið. Fréttaveitan Dow Jones greinir frá þessu.

Á málþinginu, The Euromoney Borrowers  Forum, koma saman lánveitendur og fjárfestar úr ýmsum geirum fjármálalífsins. Erlendir fjölmiðlar hafa vitnað í ræðu forsætisráðherra í morgun.

Geir sagði meðal annars að sjálfstæður gjaldmiðill fæli í sér meiri sveigjanleika fyrir Ísland en ef við værum aðilar að myntbandalagi. Það gerði stjórnvöldum kleift að bregðast við breytingum á efnahagsumhverfinu.