Þeir Finnur Árnason, forstjóri Haga, og Guðmundur Marteinsson, forstjóri Bónuss, eiga samanlagt hlutafé í Högum fyrir á bilinu 75 til tæpra 92,4 milljóna króna ef miðað er við verðbil í boðuðu útboði.

Fram kemur í skráningarlýsingu Haga sem birt var í dag að Finnur eigi 4.024.213 hluti í Högum, eða sem nemur 0,3%. Verðmæti hlutarins hleypur á 44,2 til 54,3 milljóna króna miðað við útboðsgengið 11 til 13,5 krónur á hlut.

Guðmundur Marteinsson á 0,2% hlut, 2.819.169 hluti, í Högum. Verðmæti eignarinnar hleypur á 31 til 38 milljónum króna.

Söluhömlur hvíla til 30. júlí á næsta ári á 0,6% hlut í eigu stjórnenda Haga og fjárhagslega tengdra aðila og á 0,8% hlut sem sömu aðilar eiga rétt á 15. janúar 2012.

Fram kemur í skráningarlýsingunni að þeir Finnur og Guðmundur eru á meðal 15 helstu hluthafa fyrirtækisins. Ellefu aðrir eiga minni hluti.

Aðrir hluthafar eru eftirfarandi:

  1. Eignabjarg, dótturfélag Arion Banka - 21,1 - 31,1%
  2. Búvellir - 20,9%
  3. Gildir-lífeyrissjóður - 8,6%
  4. Stefnir - 5 - 6,5%
  5. Festa lífeyrissjóður - 3,7%
  6. Lífeyrissjóður SBÍ - 1,0%
  7. Stefnir Samval - 1,0%
  8. Lífeyrissjóður bænda - 0,8%
  9. Lífeyrisauki 2 - 0,4%
  10. Finnur Árnason - 0,3%
  11. Lífeyrisauki 3 - 0,3%
  12. Vista Leið 1 - 0,3%
  13. Guðmundur Marteinsson - 0,2%
  14. Vista Leið 2 - 0,2%
  15. Vista Leið 3 - 0,1%

Í skráningarlýsingunni kemur fram að þetta jafngildi 65,4 til 75,4% eignahlutar. Til stendur að selja 20-30% hlut í útboði í næsta mánuði.