Andy Palmer hefur stigið niður sem forstjóri breska lúxusbílaframleiðandans Aston Martin. Þjóðverjinn Tobias Moers tekur við þann 1. ágúst næstkomandi en hefur starfað sem forstjóri Mercedes-AMG, dótturfélagi Daimler. BBC greinir frá.

Aston Martin hefur átt erfitt uppdráttar undanfarin ár en hlutabréfaverð hans hefur lækkað um 94% frá skráningu bréfanna þann 3. október 2018. „Stjórnin hefur ákveðið að nú sé kominn tími á nýja forystu til að ná markmiðum okkar,“ segir í tilkynningu Aston Martin.

Fráfarandi forstjórinn Palmer sagði að það hefur verið forréttindi að vinna hjá Aston Martin í tæp sex ár. Hann þakkaði stjórninni og starfsfólki fyrir dugnað og stuðning, sérstaklega á tímum Covid-19. Þrír meðlimir stjórnarinnar létu einnig af störfum á laugardaginn.

Markaðir hafa tekið vel í tilkynninguna en bréf bílaframleiðandans hafa hækkað um 35% það sem af er degi. Neil Wilson, markaðsgreinandi Market.com, segir að hækkunin í morgun sé áfellisdómur á tíma Palmer hjá fyrirtækinu.

Sala Aston Martin var helmingi minni á fyrsta ársfjórðungi ársins miðað við sama tíma í fyrra. Tap fyrir skatt á síðasta fjárhagsári nam 118,9 milljónir punda. Fyrirtækið gaf út tilkynningu í janúar um 500 milljóna punda fjármögnun, þar á meðal 182 milljóna punda fjárfestingu frá félagi Lawrence Stroll, stjórnarformanni Aston Martin.

Stroll sagði í tilkynningu félagsins í morgun að Moers væri „rétti leiðtoginn fyrir Aston Martin Lagonda.“ Stroll er meðeigandi formúlu eitt liðsins Racing Poing sem mun keyra undir merkjum Aston Martin frá og með 2021.