Stephen Schwarzman, forstjóri sjóðstýringarfélagsins Blackstone Group LP, þénaði 810,6 milljónir dollara á síðasta ári eftir að hafa skilað metfé til hluthafa sinna vegna mikillar eignasölu. Þessi fjárhæð jafngildir 104 milljörðum króna og er 17 prósentum hærri en hann þénaði árið 2014.

Hagnaður Blackstone sem hægt var að greiða út í arð jókst um 25 prósent á milli ára og var 3,8 milljarðar dollara árið 2015. Schwarzman fékk 89,5 milljónir dollara í laun, 644,8 milljónir dollara í arð frá hlutum sínum í Blackstone, 65,6 milljónir fyrir fjárfestingu sína í sjóðum Blackstone og 10,8 milljónir dollara í skattaívilnanir tengdum eignahlut hans í fyrirtækinu áður en það fór á markað árið 2007. Þetta kom allt fram í gögnum sem send voru yfirvöldum.

Schwarzman stofnaði Blackstone ásamt Peter Peterson með stofnfé að fjárhæð 400.000 dollara en er með 336 milljarða dollara í eignastýringu í dag. Hann er 100. ríkasti maður Bandaríkjanna á lista Forbes tímaritsins og metinn á 12 milljarða dollara.

Blackstone starfaði sem ráðgjafi helstu kröfuhafa Kaupþings frá árinu 2014 við gerð nauðasamninga og tillögur um undanþágu frá gjaldeyrishöftum.