Jeff Weiner, forstjóri LinkedIn, fékk óvæntan glaðning í fyrra eða 40-föld laun í hækkun. Launahækkunin liggur í bónusgreiðslu, kaupaukagreiðslum og öðru slíku sem hann fær fyrir góðan árangur í starfi. Þetta var fyrsta skiptið sem fyrirtækið greiddi bónusa síðan hlutabréf fyrirtækisins voru skráð á markað árið 2011. Forstjóri LinkedIn er með hærri bónusa og betri hlunnindi en kollegar hans hjá öðrum tæknifyrirtækjum. Þar á meðal eru Mark Zuckerberg hjá Facebook sem fékk rúmlega 653 þúsund dali í kaupauka og bónus í fyrra. Laun hans eru hins vegar 1 dollar. Á móti fær hann til afnota einkaþotu, eldsneyti og tilheyrandi.

Bloomberg-fréttaveitan segir að inni í launahækkuninni er kaupréttur sem metinn er á 28,7 milljónir dala og bónusgreiðsla í formi hlutabréfa upp á 18,7 milljónir dala. Það er tíu sinnum meira en Weiner fékk árið 2012.

Bloomberg segir þetta ekkert einsdæmi því fleiri stjórnendur LinkedIn fengu kaupauka í fyrra.

Gengi hlutabréfa LinkedIn stóð í 93 dölum á hlut á skráningardegi á markaði í maí árið 2011. Það hrapaði niður um 30% fyrsta mánuðinn. Síðan þá hefur það hækkað nokkuð en með sveiflum. Það fór hæst í 253 dali á hlut í september í fyrra en tók að lækka eftir það. Gengið stendur nú í 148 dölum á hlut, sem er um 60% gengi bréfanna í maí árið 2011.

Hér má sjá þróun á gengi bréfa LinkedIn .