Sigurður Atli Jónsson, forstjóri MP banka, var með um 1,9 milljónir króna á laun á mánuði í fyrra. Hann tók við störfum hjá bankanum í júlí í fyrra. Heildarlaun hans í fyrra námu rétt tæpum 11,6 milljónum króna. Sigurður Atli á jafnframt eignarhlut í bankanum upp á 25 milljónir króna.

Til samanburðar eru bankastjórar Arion banka og Íslandsbanka með tvær milljónir króna og upp úr í laun. Fram kom á Vísi undir lok síðasta árs að Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, sé með rétt rúma eina milljón króna í mánaðarlaun og séu þau þriðjungur af launum hinna bankastjóranna. Landsbankinn er að mestu í eigu ríkisins og heyra launakjör hans undir Kjararáð.

Í uppgjöri MP banka sem birt var í dag kemur sömuleiðis fram að greiðslur til Gunnars Karls Guðmundssonar, fyrrverandi forstjóra bankans, hafi numið tæpum 28,8 milljónum króna í fyrra. Það gera 2,4 milljónir króna á mánuði. Hluti upphæðarinnar tengist greiðslum til Gunnars Karls í tengslum við starfslok hans hjá bankanum við forstjóraskiptin, samkvæmt upplýsingum frá bankanum. Gunnar Karl hætti störfum þegar MP banki keypti fyrirtækið ALFA verðbréf en á sama tíma tók Sigurður Atli við stóli bankastjóra MP banka.

Í uppgjörinu kemur fram að greiðslur til Þorsteins Pálssonar, stjórnarformanns MP banka, hafi numið 4,5 milljónum króna allt síðasta ár. Aðrir stjórnarmenn fengu á bilinu rúmar 2,2 til 2,6 milljónir króna fyrir störf sín á árinu.