Að sögn Hermanns Guðmundssonar, forstjóra N1 olíufélagsins, er með breytingu á skattheimtu nú enn og aftur verið að sækja óhemju fjármuni í vasa bílaeigenda. ,,Með þeirri hækkun sem varð í nóvember síðastliðnum af fyrri ríkisstjórn þá sýnist mér að þetta séu á milli fjórir og fimm milljarðar króna sem ríkisstjórnin er að sækja í vasa bílaeigenda til viðbótar því sem fyrir var.“

Hermann sagðist skilja að ríkisstjórninni væri auðvitað mikill vandi á höndum, hún þarf á tekjum að halda. ,,Þetta er klassísk leið til að ná í tekjur. Ég held hins vegar að það sé ekki búið að reikna út í hörgul hvað þetta mun draga mikið saman neysluna í þessum sömu flokkum og er verið að hækka. Það er ekki víst að þessar tekjur séu í hendi sem menn eru að reikna sér vegna þessarar hækkunar.“

Hermann sagði að N1 sem fyrirtæki hefði enga skoðun á skattheimtu ríkisins en það er ljóst að öll skattheimta hefur áhrif. ,,Þetta mun hafa áhrif á öllu fyrirtæki sem gera út bílaflota, stunda dreifingu og akstur, sölumennsku eða hvað annað sem bílar eru notaðir í. Þetta kemur þeim fyrirtækjum illa.“

- Þú segir að ekki hafi verið reiknaður út samdráttur á móti. Sjáið þið fyrir ykkur hver hann gæti orðið?

„Við sáum hvað gerðist í júní og júlí á síðasta ári þegar olíuverð var í hæstu hæðum og lítraverð á díselolíu fór í 199 krónur og bensínverðið fór í 177 krónur. Þá drógu Íslendingar saman neyslu um tveggja stafa tölu í prósentu. Nú er bensínverðið komið yfir 180 krónur og díselverðið er komið yfir 170 krónur þannig að við erum farnir að nálgast aftur þann þröskuld þegar kaupendur brugðust mjög harkalega við í neyslu. Þó það hafi orðið mjög verulegur samdráttur á þessu ári eftir að kreppan skall á þá er enn rúm hjá fólki til að draga enn meira úr neyslu og það mun gera það.“