Stoðtækjaframleiðandinn Össur sendi frá sér tilkynningar á danska markaðnum fyrir skömmu þar sem fyrirtækið greindi frá viðskiptum forstjórans Jóns Sigurðarsonar með bréf í félaginu. Keypti hann 1.250.000 bréf af Össuri og seldi strax aftur út á markaðinn.

Jón greiddi 8,55 danskar krónur, eða 168 íslenskar krónur, fyrir hvern hlut klukkan 12:04 að dönskum tíma. Voru kaupin hluti af kaupréttarsamningi sem Össur og Jón gerðu þann 24. apríl 2012, en slíkir samningar milli fyrirtækja og stjórnenda þeirra eru algengir.

Einungis sex mínútum eftir kaupin seldi Jón þessa sömu hluti á 23,5 danskar krónur á danska hlutabréfamarkaðnum. Það gera samtals um 461,7 íslenskar krónur á hlut. Jón hagnaðist því um u.þ.b. 293,7 íslenskar krónur á hvern hlut sem hann fékk í þessum viðskiptum. Nam heildarhagnaðurinn af viðskiptum Jóns því rúmlega 367 milljónum króna.

Neyddist til að selja 2009

Jón Sigurðsson neyddist ásamt öðrum stjórnendum Össurar að selja stærstan hluta hlutabréfa sinna í félaginu í mars 2009. Ef Jón hefði ekki þurft að selja hefði eign hans numið um 11 milljörðum að markaðsvirði. Hér má lesa frétt Viðskiptablaðsins um málið.