Actavis og pólska fyrirtækið Bioton tilkynnti á blaðamannafundi í Varsjá í dag að fyrirtækin hafi stofnað til formlegs samstarfs um þróun og skráningu á insúlíni. Samkvæmt samningnum ber Bioton ábyrgð á þróun og framleiðslu á insúlíni en Actavis fær einkarétt til að markaðssetja það undir eigin vörumerki í Bandaríkjunum, Japan og Evrópu. Bæði fyrirtækin munu bjóða insúlín undir eigin nafni í Póllandi, sem er heimamarkaður Bioton.

Greint er frá þessu á heimasíðu Actavis. Þar kemur fram að vegna samstarfsins mun Actavis greiða Bioton samanlagt 55,5 milljónir evra, jafnvirði nærri 9 milljarða króna. Þar af voru 22,25 milljónir evra greiddar við undirritun í dag en eftirstöðvar verða greiddar í samræmi við ákvæði í samningu um framvindu á skráningu á mannainsúlíni. Samkvæmt áætlun er gert ráð fyrir að sala Actavis á lyfinu fari yfir 1,5 milljarða evra á fyrstu sjö árunum.

Claudio Albrecht, forstjóri Actavis, segir í fréttinni að hann telji samstarfið auka stórlega verðmæti fyrirtækjanna. „Bara mannainsúlín og insúlínvirku lyfin ættu að fara nærri því að auka verðmæti okkar um 900 milljónir evra. Og þökk sé samstarfssamningnum við Bioton, þá ættum við að verða meðal helstu fyrirtækja heims í framleiðslu á insúlíni,“ segir hann.

Tilkynning á vefsíðu Actavis.