Það er ekki nóg með að allra augu séu á lánshæfismatsfyrirtækjunum þegar þau lækka lánshæfiseinkunnir einstakra ríkja og valda þannig titringi á mörkuðum. Titringurinn innan veggja fyrirtækjanna er nú farinn að blasa við öllum. Þetta á ekki síst við um fyrirtækið Standard & Poor’s. Forstjóri þess til margra ára, Deven Sharma, sagði á þriðjudagsmorgun upp störfum. Hann mun formlega sleppa stjórnartaumunum 12. september nk.

Sharma viðurkenndi í tilkynningu að titringur hefði verið í hluthafahópi S&P og systurfélagsins McGraw-Hill eftir að lánshæfiseinkunn bandaríska ríkisins var lækkuð úr hæsta flokki í þann næst hæsta, AA+. Þennan titring lifði forstjórinn ekki af þegar öll kurl voru komin til grafar.

Mikil gagnrýni

Lánshæfismatsfyrirtækin S&P, Fitch og Moody’s hafa öll verið harðlega gagnrýnd fyrir störf sín, ekki síst fyrir alþjóðlega hrunið á fjármálamörkuðum 2007 og 2008. Þá lögðu lánshæfismatsfyrirtækin blessun sína yfir fjárhag margra fyrirtækja sem síðan hrundu eins og spilaborg. Skuldabréfavafningar sem voru bókfærðir sem eignir upp á hundruð milljarða dollara reyndust haldlitlar eignir þegar á hólminn var komið. Í greiningum S&P var raunar sérstaklega minnst á þessa skuldabréfavafninga sem „mikilvægar eignir við að dreifa áhættu“.

Viðskiptamódel lánshæfismatsfyrirtækjanna byggist á því að fyrirtæki sem uppfylla tiltekin skilyrði greiða háar upphæðir fyrir að fá lánshæfiseinkunn, til þess að auðvelda aðgengi að lánsfé og styrkja innra aðhald rekstrarins. Margir hafa sagt þessa stöðu sérkennilega, þar sem fyrirtækið er fjárhagslega háð því að viðskiptavinirnir séu ánægðir með lánshæfi s e i n k u n nina. Paul K r u g ma n , nóbel sverðlaunahafi í hagfræði, er einn þeirra sem gagnrýnt hafa S&P og raunar öll hin lánshæfismatsfyrirtækin líka, og sagt þau „gjörsamlega rúin trausti“ og „beinlínis skaðleg“ fyrir fjármálakerfi heimsins. Eftir að S&P lækkaði lánshæfi bandaríska ríksins sagði Krugman að ákvörðunin væri ekki aðeins illa ígrunduð og vitlaus, heldur beinlínis byggð á röngum upplýsingum. Vitnaði hann til þess að S&P hefði sagt skuldir ríkisins vera tveimur tveimur billjónum dollara hærri en þær voru í raun. S&P neyddist til þess að leiðrétta þessa villu í rökstuðningi sínum, en breytti ekki ákvörðuninni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.