Sigurður Viðarsson, forstjóri TM, segir að sprenging hafi orðið í kröfum um bætur vegna yfirsjóna til dæmis lögmanna sem hafa haft starfsábyrgðatryggingu hjá TM. Trygging lögmanna og endurskoðenda er lögbundin og verði þeim á mistök bætir tryggingarfélag þeirra tjónið samkvæmt ákveðnum skilmálum. Sigurður segir holskeflu af alls konar málum hafa komið upp þessu tengt og orðið til þess að TM hafi  þurft að borga út starfsábyrgðartryggingar.

„Þetta skipti minna máli þegar allt gekk vel og allir græddu peninga. Síðan þegar efnahagskreppan dundi yfir okkur er byrjað að leita orsaka og ýmislegt kemur í ljós þar sem menn hefðu átt að vanda sig betur," segir Sigurður. „Það kom kúfur af svona málum í kjölfar hrunsins en er að jafna sig núna. Við höfum ekki séð sama fjölda það sem af er þessu ári eins og við sáum árið 2009."

Svipað er uppi á tengingnum hvað varðar ábyrgð á störfum byggingastjóra. Nú reyni miklu frekar á tryggingar þeirra en áður þegar húsnæði hækkaði bara í verði þrátt fyrir gallana. „Þess vegna var ekkert verið að sækja í þessar bætur. Þetta er gjörbreytt í dag," útskýrir Sigurður. Allt þetta hefur áhrif á afkomu TM í þessum tryggingarflokki.

Auglýsingavæðing slysabóta

Annað sem breyttist á síðasta ári er fleiri sækja um bætur vegna líkamstjóns. Sigurður segir að það gerist á sama tíma og árekstrum fækkar um fimmtung, sem sé athyglisverð þróun. Slys á fólki sem hlutfall af tjónum hafi aukist um 38% milli ára. „Það er gríðarleg breyting. Maður veltir fyrir sér hvort auglýsingavæðing slysabóta sé að hafa þarna áhrif. Ég get ekkert fullyrt um það en maður veltir því fyrir sér," segir Sigurður og vísar þar til auglýsinga þar sem fólk er hvatt til að leita til lögmanna til að sækja bætur ef það lendir í slysum.

Hann líkir þessari þróun við það sem gerst hefur í Bandaríkjunum. „Það er verið að auglýsa þjónustu til að aðstoða fólk við að sækja bætur til tryggingarfélaga. Lögmenn taka ekkert fyrir þjónustuna nema árangur náist. Þá fá þeir greitt  ákveðið hlutfall af greiðslu tryggingarfélagsins. Það eru hagsmunir lögmannanna að fá sem hæstar bætur frekar en að koma viðkomandi strax í endurhæfingu og út á vinnumarkaðinn aftur sem gagnast þjóðfélaginu betur," bendir Sigurður á.

Hann ítrekar að fólk fær auðvitað greiddar þær bætur sem það á rétt á. Hins vegar sé þessi þróun athyglisverð og á það hafi verið bent í fréttatilkynningu sem send var með uppgjöri TM í dag.