*

fimmtudagur, 4. júní 2020
Innlent 12. janúar 2020 14:09

Forstjóri Úrval-Útsýn ósáttur

Þórunn Reynisdóttir segir ótækt að banki reki ferðaskrifstofu og með ólíkindunum að fyrrum forstjóri Heimsferða sé kominn af stað aftur.

Ritstjórn
Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrval-Útsýn.
Haraldur Guðjónsson

Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrval-Útsýn, segir óeðlilegt út frá samkeppnis sjónarmiðum að þurfa að keppa við banka en Heimsferðir eru í dag í eigu Arion banka. Þetta kemur fram í viðtali við hana á vef Túrista.

„Eins og þetta lítur út í dag er Arion banki að leigja flugvélar til að fljúga fólki í sólarlandaferðir,” segir Þórunn og vísar til þess að nú hafa Heimsferðir gengið frá leigusamningi um afnot af flugvél ítalsks flugfélags í allt sumar. Samtals verða sæti fyrir um 34 þúsund manns, báðar leiðir. Segist Þórunn vonast til þess að bankinn selji Heimsferðir sem fyrst en hún vill ekki segja neitt um það hvort Úrval-Útsýn hafi áhuga á að kaupa félagið .

Heimsferðir voru stofnaðar af Andra Má Ingólfssyni árið 1992 og rak hann ferðaskrifstofuna allt þar til Arion banki leysti til sín allar ferðaskrifstofur, sem heyrðu undir Primera Travel seinni hluta ársins 2018.

Nú hefur Andri Már boðað endurkomu sína í ferðaþjónustuna því hann er að setja á stofn nýja ferðaskrifstofu. Þórunn setur spurningarmerki við þetta í viðtalinu við Túrista, þar sem hún segir:  „Mér finnst það með ólíkindum að Andri Már komi núna, korteri eftir að hafa misst ferðaskrifstofurnar til bankans og ætli að hefja leik á ný eins og ekkert sé eðlilegra. Það er ekkert eðlilegt við það. Svo kemur Andri fram í fjölmiðlum og segir að hann sé fullfjármagnaður. Nýstofnaða fyrirtækið hans er með hlutafé upp á 500 þúsund krónur samkvæmt fyrirtækjaskrá. Þetta sýnir bara hvað þröskuldurinn er lágur í þessum rekstri og eitthvað bogið við kerfið.”