Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS, segist í samtali við Viðskiptablaðið vera mjög sátt við uppgjör tryggingafélagsins á öðrum ársfjórðungi. Hún tekur þó fram að fyrri árshelmingur sé undir væntingum og þá sérstaklega fjárfestingamegin. Hún segir neikvæða þróun fjármálamarkaða þýða að hlutabréf, sem og verðtryggð og óvertryggð skuldabréf, hafi gefið minna af sér en vonast hafi verið eftir. Hún segir að mikil samkeppni sé á vátryggingamarkaðnum.

„Iðgjöldin eru þó að vaxa hjá okkur á 2. ársfjórðungi frá 1. ársfjórðungi og eru á svipuðu róli og þau voru á sama tíma í fyrra, kannski eru það teikn um að það sé eitthvað að gerast á markaðnum – að efnahagslífið sé eitthvað að taka við sér,“ segir Sigrún Ragna og tekur fram að hún sé bjartsýn á framhaldið. „Við höldum að það sé til fullt af tækifærum.“

Fjallað er um afkomu tryggingafélaganna í blaðinu Úr Kauphöllinni sem fylgdi Viðskiptablaðinu í vikunni. Þar kemur m.a. fram að samanlagður hagnaður tryggingafélaganna Sjóvár, VÍS og TM nam 970 milljónum króna á fyrri helmingi ársins samanborið við 2.606 milljónir á sama tímabili í fyrra. Hagnaðurinn hefur því dregist saman um 63% milli ára.

Nánar er fjallað um málið í blaðinu Úr Kauphöllinni sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .