Nick Buckles, forstjóri breska öryggisfyrirtækisins G4S hætti óvænt í dag skömmu fyrir aðalfund fyrirtækisins. Breska dagblaðið Financial Times skrifar brotthvarf Buckles á slælega öryggisgæslu á Olympíuleikunum í London í fyrrasumar.

Blaðið rifjar upp að Buckles hóf störf hjá G4S fyrir 17 árum og vann sig hægt og bítandi upp metorðastigann innan fyrirtækisins uns hann settist í forstjórastólinn árið 2004. Hann var þá 43 ára og varð sá yngsti til að stýra skráðu fyrirtæki í Bretlandi.

Þá er rifjað upp að fyrirtækið hafi vaxið hratt með Buckles við stýrið en það er með starfsemi í 125 löndum og með 657 þúsund manns á launaskrá. Á hinn bóginn er eitt og annað sem hefur farið miður undir stjórn Buckles á síðastliðnum tveimur árum. Fyrir utan að hafa ekki sinnt öryggi nógu vel á Ólympíuleikunum í London í fyrra þá ætlaði GS4S að taka yfir danska ræstingarisann ISS árið 2011. Kaupverðið átti að nema 5,2 milljörðum punda, jafnvirði næstum því 970 milljörðum íslenskra króna. Hluthafar G4S voru hins vegar ekki á sama máli og forstjórinn og höfnuðu yfirtökunni. Tilraunin til fyrirtækjakaupanna kostaði G4S háar fjárhæðir, peningar sem runnu að mest til ráðgjafa í viðskiptunum. Það er svo eins og að bæta gráu ofan á svart að nokkrir fangar hafa sloppið úr fangaflutningum sem G4S hefur sinnt og lyklar að fangelsisklefum glatast.