Satya Nadella, forstjóri Microsoft, seldi tæplega helming hlutabréfa sinna í netrisanum fyrir 285 milljónir dala, eða um 37 milljarða króna, í byrjun síðustu viku. Alls seldi hann 838,6 þúsund bréf en fyrir átti hann nærri 1,7 milljónir að nafnverði. WSJ greinir frá.

„Satya seldi um það bil 840 þúsund hluti af hlutabréfaeign sinni í Microsoft vegna persónulegrar fjárhagslegrar skipulagningar (e. personal financial planning) og áhættudreifingar,“ segir í tilkynningu sem talsmaður Microsoft sendi frá sér. „Hann er staðráðinn í að tryggja áframhaldandi velgengni fyrirtækisins og eignarhlutur hans er umfram þau skilyrði sem stjórn Microsoft setur.“

Greiningaraðilar telja að salan gæti tengst skattatillögum ríkisstjórnar Biden sem felur í sér 7% skatt á söluhagnað umfram 250 þúsund dala, eða sem nemur 32,5 milljónum króna, á ári. Skattalagabreytingarnar taka gildi í byrjun næsta árs.

Frá því að Nadella tók við sem forstjóri Microsoft árið 2014 hafa hlutabréf Microsoft hækkað um 780% og markaðsvirði netrisans nemur 2,5 þúsund milljörðum dala í dag. Nadella hefur á sínum tíma lagt áherslu á skýjaþjónustu og að selja þjónustu til stórra fyrirtækja.