Stjórn og stjórnarandstaða sitja þessa dagana saman við að finna leiðir til að bæta ásýnd þingsins. Þetta segir Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra í viðtali við DV í dag. „Við höfum vaxandi áhyggjur af stöðu þingsins í samfélaginu,“ segir Jóhanna í viðtalinu. Hún bætir þá við að formenn stjórmálaflokkanna hafi fundað á síðustu dögum og rætt sín á milli hvernig bæta megi ásýnd þingsins. „Þetta er einu sinni löggjafarsamkoman. Ég get ekki heyrt betur en að foryrstumenn flokkanna ætli að reyna að leggja sig fram við að taka sig á svo þingið geti breyst.“

Jóhanna tekur þó ekki fram hvort þessar viðræður og áhersla þings á vinnubrögð koma í kjölfar ummæla forseta Íslands við þingsetningu þar sem hann bauð fram aðstoð sína við að bæta ásýnd þingsins.

Formenn flokkanna ræða þó fleira sín á milli og segist Jóhanna vonast til að samkomulag náist þeirra á milli um framlagningu stærri mála á þingi. Þannig vill hún komast hjá málþófi en hún segir tvo fundi þegar hafa verið halda meðal allra formanna þar sem rætt var hvort hægt væri að semja um þann tíma sem mörg stærri mál líkt og breyting á fiskveiðistjórnunarkerfi, rammaáætlun og breytingar á stjórnarskrá, fái í þinginu. „Ég vona að við náum samstöðu um það hvenær þessi mál koma til umræðu,“ segir Jóhanna í viðtalinu.