*

mánudagur, 6. desember 2021
Innlent 7. janúar 2017 18:17

Fótboltinn er eins og rússíbani

„Stundum gengur allt á afturfótunum og lífið er ömurlegt og síðan koma svona stundir eins og í Frakklandi."

Trausti Hafliðason
epa

Jón Daði Böðvarsson knattspyrnumaður rifjar meðal annars upp ævintýrið í Frakklandi síðasta sumar í viðtali í tímaritinu Áramótum, sem Viðskiptablaðið gaf út á dögunum.

„Þetta var alveg magnaður tími," segir Jón Daði. „Aldrei hefði mig grunað að ég ætti eftir að spila í lokakeppni EM. Ég veit ekki hvernig ég á að lýsa þessu. Fótboltinn er eins og eitt langt ferðalag eða kannski frekar rússíbanareið með öllum sínum hæðum og lægðum. Stundum gengur allt á afturfótunum og lífið er ömurlegt og síðan koma svona stundir eins og í Frakklandi — þetta er súrrealískt. Þegar ég var á litla gervigrasvellinum á Selfossi að leika mér var ég  stundum með einhverja dagdrauma, eins margir litlir strákar, en ef einhver hefði hvíslað því að mér þá að eftir nokkur ár myndi ég skora mark í lokakeppni EM þá hefði ég bara hlegið.

Þegar ég hugsa aftur á man ég nokkra punkta en það er enn smá þoka yfir sumu. Mér fannst ég spila best í fyrsta leiknum á móti Portúgal þrátt fyrir að ég hafi ekki skorað. Allar snertingar, hreyfingar og sendingar gengu upp hjá mér. Það var ótrúlega jákvætt fyrir okkur að ná jafntefli í fyrsta leik. Hjá liðinu fannst mér leikurinn á móti Ungverjum vera sá slakasti en við fengum þó stig."

Með matareitrun í Frakklandi

„Ég hef nú ekki sagt frá því áður en ég fékk matareitrun fyrir þann leik og var slæmur alveg til síðasta leiks í mótinu. Það var alveg skelfilegt en maður náði einhvern veginn að keyra sig áfram með því að drekka mikið og borða meira en allir aðrir. Ég vann mest fyrir orkuleysi í Ungverjaleiknum en var skárri eftir hann.

Leikurinn á móti Austurríki var náttúrlega mjög minnisstæður því ég skoraði mark. Þó við höfum unnið þann leik þá var hann sá erfiðasti á mótinu að mínu mati. Mér fannst Austurríki vera besta liðið sem við spiluðum við og skil ekki afhverju þeir komust ekki áfram. Leikurinn á móti Englandi var síðan alveg sér kapítuli. Það var eins og einhver hefði skrifað handrit sem síðan gekk fullkomlega upp. Ég er enn í dag að pirra mig á Frakkaleiknum. Þeir voru reyndar alveg svakalega beinskeyttir í fyrri hálfleik og refsuðu okkur grimmt. Það gekk eiginlega allt upp hjá þeim enda unnur þeir okkur. Ég hugsa samt enn í dag, afhverju gátum við ekki bara unnið og farið í úrslitin. Portúgal fór í úrslitaleikinn og vann — ég meina, kommon!"

Jón Daði segir að í íslenska landsliðinu sé óbilandi sjálfstraust og núna komist ekkert annað að en að tryggja sæti í lokakeppni HM í Rússlandi.

„Ég held að við komust til Rússlands. Ég er ekki saddur frekar en nokkur annar í liðinu. Þó í liðinu sé margir ólíkir persónuleikar hef ég aldrei upplifað jafnmikla samheldni í nokkru liði. Það eru allir í þessu saman og bera virðingu fyrir hvor öðrum. Eitthvað það skemmtilegasta sem ég geri er að hitta strákana í landsliðinu. Bæði Lars og Heimir Hallgrímsson eiga stóran þátt í því að skapa þennan anda og samstöðu. Eftir að Lars hætti hefur Heimir haldið í sömu hefðir en kryddað kannski aðeins með sínu."

Ítarlegt viðtal við Jón Daða er í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast tímaritið hér.