Franska þingið samþykkti í dag lög sem banna of grannar fyrirsætur á tískusýningum og auglýsingum. Lögin eru liður í því að berjast gegn anorexíu í Frakklandi og eru áþekk sambærilegum lögum sem hafa verið samþykkt á Ítalíu, Spáni og í Ísrael. Ríkisstjórn sósíalistaflokks Francois Hollande, frakklandsforseta, kom málinu í gegnum þingið.

Brot á lögunum varða sekt sem nemur allt að 75.000 evrum eða fangelsisvist í allt að sex mánuði. „Fyrirsætustörf eru óheimil þeim sem hafa líkamsþyngdarstuðul (BMI) sem er lægri en það sem heilbrigðisyfirvöld ákveða," segir í lagafrumvarpinu.

Auk þessa voru samþykkt lög sem banna vefsíður sem þykja ýta undir anorexíu, til dæmis með því að hvetja til megrunaraðferða sem geta stefnt heilsu eða lífi fólks í hættu.

Reuters greinir frá.