Brúnin er þung á Frökkum um þessar mundir en væntingar þeirra hafa ekki mælst minni í aldarfjórðung. Væntingarvísitala Frakka sem hagstofa landsins birti í dag mælist 79 stig í mánuðinum og er það fjórum stigum minna en í apríl. Jafn litlar væntingar hafa ekki mælst í Frakklandi síðan árið 1987.

Breska ríkisútvarpið ( BBC ) bendir á að atvinnuleysi í Frakklandi mælist nú 11% og geri Frakkar almennt ráð fyrir því að það eigi eftir að aukast frekar þar sem stjórnvöld ætli að vinna að því að gera vinnumarkaðinn sveigjanlegri, s.s. með því að breyta vinnulöggjöfinni á þann veg að gera atvinnurekendum auðveldara að segja starfsfólki upp.