Stjórnvöld í Frakklandi hafa hafnað beiðni netrisans Amazon um að greiða hlutabætur til starfsmanna félagsins þar í landi. Reuters segir frá.

Um 10 þúsund starfsmenn starfa hjá Amazon í Frakklandi en þeir hafa haft lítið að gera frá 16. apríl síðastliðnum. Amazon hætti starfsemi í landinu tímabundið eftir að dómsúrskurð þess efnis að fyrirtækinu væri óheimilt að senda annað en nauðsynjavörur heim að dyrum neytenda. Var það gert á grunni neyðarréttarsjónarmiða til að forða því að sendlar félagsins bæru smit á milli húsa.

Amazon hefur gefið út að félagið muni greiða starfsmönnum sínum full laun á meðan lokunin stendur yfir en sótti jafn framt um að fá hlutabætur greiddar úr ríkissjóði Frakka. Ríkið greiðir um þessar mundir 70% launa starfsmanna sem lenda á hlutabótum vegna veirufaraldursins.

Ef Amazon unir ekki úrskurðinum, heldur heldur sínu striki, gæti það þýtt háar sektagreiðslur. Sem stendur er félaginu aðeins heimilt að senda matvöru, gæludýrafóður og lyfja- og heilsuvörur.

„Beiðninni hefur verið hafnað þar sem að lokun vöruhúsanna má rekja til dómsúrskurðar en ekki samdráttar í tekjum sökum faraldursins,“ hefur Reuters eftir talsmanni vinnumálaráðuneytis Frakklands.

„Sektargreiðslan gæti numið meira en milljarði evra þó að brotið væri smávægilegt. 0,1% af einhverju öðru en samþykktum vörum væri í ósamræmi við hann,“ segir í yfirlýsingu frá Amazon. Félagið segir einnig að það eigi í viðræðum við stjórnvöld í Frakklandi um það hvernig sé unnt að koma vöruhúsunum sex í landinu á fullt skrið á ný.