Framboð Guðlaugs Þórs Þórðarsonar í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík kostaði 3,5 milljónir króna. Hann stefndi á 2. sæti á lista flokksins í prófkjörinu en lenti í því 5. Guðlaugur lagði sjálfur til 390 þúsund krónur til framboðsins. Sautján einstaklingar lögðu honum til rúma 1,1 milljón krónur. Afgangurinn, tæplega 1,9 milljón króna, kom frá fjórtán lögaðilum.

Styrkveitingar til framboðs Guðlaugs voru til umræðu í fjölmiðlum á árunum 2009 og 2010 vegna prófkjörs flokksins árið 2006. Framlög til hans þá námu 24,8 milljónum króna. Þar af styrktu Baugur Group, FL Group og Fons, félag Pálma Haraldssonar, prófkjör hans hvert um sig um tvær milljónir króna. Styrkveitingarnar voru mun hærri en aðrir frambjóðendur þáðu á sama tíma.

Hæsta framlagið 400 þúsund

Stærsta framlagið vegna framboðs Guðlaugs nú hljóðar upp á 400 þúsund krónur. Það barst frá Bókhalds og tölvuþjónustunni sf. Þrjú hundruð þúsund krónur komu frá Bláa Lóninu. Þar á eftir barst framboðinu framlag upp á 250 þúsund krónur frá Brekkuhúsum.

Annar stuðningur barst frá Fasteignafélaginu JS ehf, Hraðfrystihúsi Hellisands, heildversluninni JOCO‐L.M. Jóhannsson, ráðgjafafyrirtækin Svinnur ehf og T22 ehf, Toyota á Íslandi, Veiðiklúbbur Íslands, Viðarsúls, útgerðin Þorbjörn, Örninn hjól, Byggingafélag Gylfa og Gunnars.