Tillaga architecture.cells, hlaut fyrstu verðlaun í hönnunarsamkeppni um Framhaldsskólann í Mosfellsbæ á dögunum. Var verðlaunaupphæðin 4 milljónir króna. Höfundar tillögunnar eru Aðalheiður Atladóttir, Falk Krüger og Filip Nosek. Ráðgjafi var Árni Þórólfsson, arkitekt FAÍ (Félagi í Arkitektafélagi Íslands).

Önnur verðlaun og 3 milljónir króna fengu KRADS ARKITEKTÚR, Kristján Örn Kjartansson arkitekt FAÍ, Kristján Eggertsson arkitekt FAÍ, Mads Bay Møller arkitekt MAA (Medlem af Akademisk Arkitektforening) og Kristoffer Juhl Beilman arkitekt MAA, og arkitektanemarnir Bjarni Þorsteinsson, Vilborg Guðjónsdóttir og Pétur Blöndal Magnason. Sérlegir ráðgjafar voru Guja Dögg Hauksdóttir arkitekt FAÍ og Kjartan Rafnsson byggingatæknifræðingur.

Þriðju verðlaun og eina milljón króna fengu Guðrún Ingvarsdóttir arkitekt FAÍ hjá Arkþingi ehf., Helgi Mar Hallgrímsson arkitekt FAÍ. Lóðarhönnun Inga Rut Gylfadóttir og Björk Guðmundsdóttir, landslagsarkitektar FÍLA (í Félagi íslenskra landslagsarkitekta) hjá Forma ehf.

Auk fyrrnefndra verðlauna voru keyptar tvær tillögur fyrir hálaf milljón króna hvor. Tillögur í hönnunarsamkeppninni hafa verið til sýnis fyrir almenning á Torginu í Kjarna, Þverholti 2 í miðbæ Mosfellsbæjar.

Dómnefnd var skipuð fimm fulltrúum. Tilnefndir af verkkaupa voru formaður dómnefndar, Þráinn Sigurðsson, sérfræðingur mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Jóhanna Björg Hansen, bæjarverkfræðingur Mosfellsbæjar og Ólafur Sigurðsson, sérfræðingur mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Tilnefndir af Arkitektafélagi Íslands voru Kristín Brynja Gunnarsdóttir, arkitekt FAÍ og Sigurður Einarsson, arkitekt FAÍ. Ritari dómnefndar var Bergljót S. Einarsdóttir, verkefnisstjóri/arkitekt FAÍ Framkvæmdasýslu ríkisins og trúnaðar- og umsjónarmaður samkeppninnar var Gísli Þór Gíslason, verkefnastjóri hjá Ríkiskaupum.