*

miðvikudagur, 20. janúar 2021
Innlent 12. febrúar 2020 15:28

Framkvæmdastjóra Sorpu sagt upp

Dr. Helgi Þór Ingason, prófessor við verkfræðideild HR, tekur tímabundið við framkvæmdastjórastöðunni.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Stjórn Sorpu hefur ákveðið að segja Birni H. Halldórssyni, framkvæmdastjóra félagsins, upp störfum með sex mánaða uppsagnafresti skv. ráðningarsamningi. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

„Þessi ákvörðun á sér m.a. stoð í nýlegri skýrslu Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um stjórnarhætti og áætlunargerð vegna gas- og jarðgerðarstöðvar þar sem m.a. voru gerðar alvarlegar athugasemdir við störf og upplýsingagjöf framkvæmdastjóra og gerð kostnaðaráætlana. Að fengnum andmælum framkvæmdastjórans við efni skýrslunnar var ákveðið að veita honum áminningu í samræmi við ákvæði kjarasamnings og gefa honum kost á frekari skýringum og athugasemdum. Að þeim fengnum og í ljósi annarra aðstæðna var tekin ákvörðun um uppsögn,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir jafnframt í tilkynningunni að ákveðið hafi verið á stjórnarfundinum í dag að ráða Dr. Helga Þór Ingason, prófessor við verkfræðideild Háskólans í Reykjavík, tímabundið í starf framkvæmdastjóra SORPU bs. Helgi Þór er einnig forstöðumaður MPM náms - meistaranáms í verkefnastjórnun við HR. Rannsóknir Helga Þórs og kennsla á framhalds- og grunnstigum háskóla hafa einkum snúist um verkefna- og gæðastjórnun. Helgi Þór var ráðinn tímabundið sem forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur á árunum 2010-2011.

„Stjórn SORPU bs. mun ásamt Helga Þór og starfsmönnum SORPU bs. vinna að endurskipulagningu rekstrar fyrirtækisins með sjálfbærni, umhverfisvernd og samfélagslega þjónustu að leiðarljósi. Stjórnin mun í þeirri vinnu kappkosta að eiga náið samráð við eigendur SORPU bs. en félagið er rekið sem byggðasamlag sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu,“ segir í niðurlagi tilkynningarinnar.

 

Stikkorð: Sorpa