Chris Payne, framkvæmdastjóri stefnumótaforritsins Tinder, hefur sagt upp störfum og mun einn stofnenda fyrirtækisins, Sean Rad, taka við starfinu í hans stað. CNN greinir frá þessu.

Payne hafði aðeins gegnt stöðunni í fimm mánuði en hann tók við henni í mars síðastliðnum. Matt Cohler, stjórnarmaður hjá Tinder, segir að um sameiginlega ákvörðun hafi verið að ræða þar sem Payne hafi ekki verið rétti maðurinn til að gegna stöðunni til lengri tíma litið.

Payne hafði áður gegnt stjórnunarstöðu hjá Ebay, þar sem hann bar ábyrgð á markaði félagsins í Norður-Ameríku. Þá hefur hann einnig unnið hjá Microsoft og Amazon. Rad, sem mun nú taka við stöðunni, hefur áður gegn stöðu framkvæmdastjóra Tinder en lét af störfum í nóvember á síðasta ári.