Framkvæmdasýsla ríkisins hyggst bjóða út framkvæmdir fyrir um fjóra milljarða króna á þessu ári sem er verulegur samdráttur frá fyrri árum. Þar fyrir utan eru verkefni fyrir aðra eins eða stærri upphæð sem boðin voru út í fyrra og eru nú á framkvæmdastigi.

Óskar Valdimarsson, forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins (FSR), lýsti fyrirhuguðum verkefnum á Útboðsþingi sl. föstudag. Sagði hann allar fyrirhugaðar framkvæmdir á vegum FSR utan tvær vera á landsbyggðinni. Búið væri að taka ákvörðun um að fara í allar þær framkvæmdir sem hann kynnti á fundinum. Auk þess væri fjöldi verkefna, m.a. á fjárlögum sem ekki væri endanlega búið að taka ákvörðun um að setja í gang.

Meðal verkefna á vegum menntamálaráðuneytisins er einungis tvö verkefni. Það er stækkun á Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra upp á um 150 milljarða króna sem ráðist verður í á haustdögum. Þá er stækkun á Verkmenntaskólanum á Akureyri upp á um 100 milljónir króna. Er þetta verulegur niðurskurður á framkvæmdum menntamálaráðuneytisins sem undanfarin ár hefur verið að verja um einum milljarði í framkvæmdir á ári.

Heilbrigðisráðuneytið hefur sömu leiðis verið með um ein til ein og hálfan milljarð í framkvæmdir á ári. Nú er hins vegar einungis búið að taka ákvörðun um að innrétta fyrstu hæð og kjallara í Heilbrigðisstofnuninni Suðurlands á Selfossi fyrir um 200 milljónir króna.

Félags og tryggingamálaráðuneytið er búið að taka yfir hjúkrunarheimilin frá heilbrigðisráðuneytinu. Þar er um að ræða byggingu á 110 rúma hjúkrunarheimili við Suðurlandsbraut í Reykjavík og 44 rými í Kópavogi. Þá er búið að bjóða út viðbyggingu Hjúkrunarheimilisins Jaðars á Ólafsvík upp á um 200 milljónir króna.

Auk þessa þá er hugmyndin að nokkur sveitarfélög sjái um byggingu hjúkrunarheimila í framtíðinni, en ríkið geri síðan langtímasamninga um leigu á þeim byggingum. Alls er þar um að ræða 200 rými eða 15 þúsund fermetra og í því verkefni eru Seltjarnarnesbær, reykjanesbær, Borgarbyggð, Mosfellsbær, Kópavogur, Hafnarfjörður og Garðabær.

Á vegum fjármálaráðuneytisins er ætlunin að vinna við breytingar og viðhaldsvinnu á þessu ári upp á 2.350 milljónir króna. Af því eru einungis verkefni fyrir um 215 milljónir samanlagt sem boðin verða út, en þau eru öll upp á 10 milljónir króna eða meira. Minni verkefni fyrir rúma tvo milljarða króna verða ekki boðin út heldur samið beint við verktaka.

Á vegum dómsmálaráðuneytisins á að bjóða út í sumar innréttingar og viðbyggingu við lögreglustöðina á Höfn í Hornafirði. Það verk er áætlað að kosti um 60 milljónir króna.

Á vegum umhverfisráðuneytisins verður boðin út í vor gerð leiðigarðs upp á um 150 milljónir króna á Ólafsfirði. Einnig er búið að bjóða út, en ósamið enn vegna verkefnis við upptakastoðmannvirki á Neskaupstað fyrir um 300 milljónir króna. Bygging sjóflóðavarnargarðs á Bíldudal er hins vegar langt komin og lýkur í haust og unnið er að gerð snjóflóðavarna í Bolungarvík.

Þá er á vegum umhverfisráðuneytisins áætlað að bjóða út í vor byggingu gestastofu í vatnajökulsþjóðgarði á Skriðuklaustri fyrir um 170 milljónir króna.

Stærsta framkvæmdin á höfuðborgarsvæðinu er svokallað Skúlahús í Vonarstræti sem tekið verður í sundur og flutt um set í Kirkjustræti. Þar er um að ræða 450 milljóna króna verkefni sem boðið verður út í vor, en framkvæmdin deilist á tvö ár.