Að sögn Júlíusar Jónssonar, forstjóra Hitaveitu Suðurnesja, gerir félagið ráð fyrir að nýta að mestu orku frá Reykjanesvirkjun til að uppfylla sinn hluta af orkuöflunarsamningum vegna álvers Norðuráls í Helguvík. HS tók að sér að útvega 100 til 150 MW vegna álversins í Helguvík og Orkuveita Reykjavíkur hyggst útvega 100 MW.

Þessi orkuöflun er vegna 1. áfanga álversins sem verður 120 til 150 þúsund tonn. Ef álverið verður 150 þúsund tonn í 1. áfanga þá þarf HS að útvega 150 MW af þeim 250 MW sem þarf. „Vitaskuld er slangur af fyrirvörum í þessu hér og þar. Í nútímaþjóðfélagi þarf 20 leyfi til að snýta sér og því gera menn ekkert nema þeir hafi fjölda fyrirvara,“ sagði Júlíus.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .