*

þriðjudagur, 18. júní 2019
Innlent 16. janúar 2019 19:00

Framleiðir „sósu almúgans“

Fyrsta íslenska „hot sauce“ sósan Bera, er nefnd er eftir austfirskri skessu og er framleidd á Karlsstöðum í Berufirði.

Sveinn Ólafur Melsted
Bera - fyrsta íslenska „hot sauce“ sósan.
Aðsend mynd

Íslenska „hot sauce“ sósan Bera, sem nefnd er eftir austfirskri skessu og framleidd er á Karlsstöðum í Berufirði, er nýlega komin á markað. William Óðinn Lefever, chilli áhugamaður og maðurinn á bak við Beru, segir að Bera sé mjög aðgengileg og kallar hann Beru sósu almúgans. „Ég fór út í þetta þar sem mér þykir gaman að sýsla með mat og gefa fólki að borða. Ég ákvað strax að gera þetta á mínum hraða og hugsunin hefur aldrei verið að græða peninga á þessu. Takmarkið mitt er að koma sósu í hendurnar á þeim sem kunna að meta það, án þess þó að tapa peningum á því.“

Hófst sem tilraun í eldhúsinu heima   

Óðinn segir að í fyrstu hafi hann hugsað sósugerðina sem leið til að svala eigin þörf og að það hafi ekki hvarflað að honum að hefja framleiðslu á sósunni.

„Upphaflega var ég bara að prófa mig áfram við sósugerðina í eldhúsinu heima. Þegar vinir mínir komu í heimsókn þá bað ég þá alltaf um að smakka afraksturinn. Þetta mældist vel til hjá þeim sem smökkuðu sósuna og margir hvöttu mig til þess að hefja framleiðslu. Þar sem ég er í eðli mínu frekar passífur og alls ekki áhættusækinn þá var ég nú ekki á því í fyrstu að hefja framleiðslu. Einhverju síðar benti unnustan mín mér á að Uppbyggingarsjóður Austurlands væri að auglýsa eftir umsækjendum um styrki. Hún hvatti mig til þess að sækja um og ég ákvað að slá til,“ segir Óðinn. Hann sótti um eina milljón króna í styrk, sem hann svo fékk og gat hann því látið slag standa.

Vel heppnuð söfnun

Í kjölfar þess tók við ferli að afla sér allra tilskilinna leyfa til að mega hefja framleiðslu. „Það er hellingsvinna sem fylgir þessu. Það þurfti meðal annars að panta flöskur undir sósuna að utan, þau hráefni sem ekki fást hér heima og fleira. Ég er auk þess í fullri vinnu og með tvö lítil börn, þannig að það var í nægu að snúast. Ferlið frá frumstigi þar til varan var komin fullunnin í flöskur tók því nokkurn tíma en var jafnframt mjög skemmtilegt. Það var svo í lok síðasta árs sem varan var tilbúin til að fara í sölu.“

Þegar þarna var komið við sögu ákvað Óðinn að hefja söfnun á Karolina Fund með því að selja sósuna til fólks fyrirfram, til þess að afla fjármagns fyrir mögulegt framhald og kanna hvort hægt væri að búa til arðbæran rekstur í kringum sósugerðina. Óðinn segir að söfnunin hafi farið fram úr hans björtustu vonum. „Þetta er mikilvæg tekjulind fyrir náunga með litla framleiðslu sem býr úti í rassgati,“ segir Óðinn kíminn.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Umfjöllun um stöðu Brexit.
  • Umfjöllun um stöðuna á hlutabréfamarkaðnum. 
  • Úttekt á kjaramálunum.
  • Viðtal við Ómar Svavarsson, forstjóri Securitas.
  • Umfjöllun um einkavæðingu bankanna. 
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað. 
  • Týr fjallar um braggamálið. 
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is