„Ísland kemur vel út úr samanburði við hin Norðurlöndin þegar framleiðni vinnuafls í „hefðbundnum" geirum á Íslandi, sjávarútvegi og orkufrekum iðnaði, er skoðuð. Það má þakka stærðarhagkvæmni vegna erlendra markaða og samkeppni, en Ísland er eftirbátur Norðurlandanna hvað þetta varðar í óhefðbundnum geirum, þar á meðal ferðamannaiðnaði." Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu AGS um efnahagsástand á Íslandi.

Í skýrslunni segir jafnframt að mikilvægt sé að laða að verðmætari ferðamenn, fjárfesta í innviðum tengdum ferðaþjónustu og draga úr árstíðarsveiflum í greininni.

Segjast ætla að draga úr aðgangshindrunum

Þá kemur fram að íslensk stjórnvöld hyggist bregðast við með því að ryðja úr vegi aðgangshindrunum inn í ferðamannaiðnað. Í þessu sambandi vekur nýtt frumvarp Ásmundar Friðrikssonar , þingmanns úr Sjálfstæðisflokki, og tíu öðrum þingmönnum athygli.

Frumvarpið miðar að því að koma upp opinberu leyfiskerfi til að geta starfað sem leiðsögumaður, þar sem krafa er gerð um að hafa lokið sérstöku námi eða hafa starfað í þrjú ár í greininni, en slíkt felur í sér aðgangshindrun í ferðamannaiðnaði. Kynni frumvarpið því að vera andstætt þeim markmiðum sem stjórnvöld segjast vinna að í skýrslu AGS.