Útgjöld til sautján eftirlitsstofnana aukast um 725 milljónir á næsta ári miðað við forsendur fjárlaga. Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag.

Af stofnununum sautján eru aðeins tvær sem sjá fjárveitingar sínar dragast saman milli ára, en það eru Hafrannsóknastofnun og Fiskistofa. Framlög til þeirra dragast samtals saman um 119 milljónir króna. Útgjöld til 15 annarra eftirlitsstofnana aukast hins vegar milli ára.

Samtals fá stofnanirnar sautján um 13,1 milljarð á næsta ári, borið saman við 12,4 milljarða í ár. Nemur aukningin 725 milljónum króna. Það er 5,8% hækkun á framlögum milli ára.

Samgöngustofa fær mesta aukningu, eða 144 milljónir. Næst kemur Matvælastofnun með 136 milljóna viðbótarframlag og í þriðja sæti er Vinnueftirlit ríkisins sem fær 111 milljónum króna meira en í fyrra.

Í Morgunblaðinu er rætt við Guðlaug Þór Þórðarson, varaformann fjárlaganefndar og segir hann ríkisstofnanir sporna við sparnaði með öllum tiltækum ráðum.

„Kerfið ver sig með öllum ráðum. Það skortir skilning á mikilvægi þess að gæta aðhalds í ríkisfjármálum og hafa í þessu tilfelli einfalt og skilvirkt eftirlitskerfi. Þetta er útlagður kostnaður skattgreiðenda og það er líka í þessu fólginn mikill óbeinn kostnaður fyrir atvinnulífið og fólkið í landinu.“ segir Guðlaugur Þór.