Fyrstu kappræður þeirra Barack Obama, forseta Bandaríkjanna og Mitt Romney, forsetaefnis Repúblikana, á miðvikudagskvöldið minntu helst á það þegar þeir Richard Nixon og John F. Kennedy tókust á í sjónvarpssal árið 1960. Kappræðurnar þykja ekki síst eftirminnilegar þar sem Nixon stóð sig með eindæmum illa gagnvart kvennagullinu Kennedy.

Þetta fullyrðir rithöfundurinn Jerry Weissman , dálkahöfundur bandaríska tímaritsins Forbes. Hann segir í nýjasta dálki sínum um kappræðurnar forsetann hafa átt afleitan leik. Hann hafi m.a. virst illa undirbúinn, á stundum reiður, ekki horft á anstæðing sinn heldur ofan í gólf og ekki nýtt sér veikleika Romneys þegar hann gaf færi á sér.

Stjórnmálaskýrendur eru nokkuð sammála Weissman um að Romney stóð með pálmann í höndunum eftir kappræðurnar.

Þeir Barack Obama og Mitt Romney mætast öðru sinni þriðjudaginn 16. október næstkomandi í Hofstra-háskólanum í Hempstead í New York-ríki. Þar munu þeir takast á um innanríkis- og utanríkismál. Áður en af því verður munu þeir Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, og Paul Ryan, varaforsetaefni Mitt Romneys, etja kappi um sömu mál. Fyrstu kappræður þeirra verða í Kentucky á fimmtudag í næstu viku.

Er þunnu lofti í Denver um að kenna?

Al Gore, varaforseti í tíð Bill Clinton á árunum 1993 til 2001 en laut í lægra haldi gegn George W. Bush og hefur síðustu ár fest sig í sessi sem náttúruverndarsinni, kom til varnar Obama í dag. Hann taldi í samtali við þáttastjórnanna á bandarísku sjónvarpsstöðinni Current TV hugsanlega ástæðu fyrir lélegri frammistöðu forsetans þá að Denver liggi hátt og taki tíma að jafna sig á því. Það hafi Obama ekki gert, hann hafi komið til Denver klukkan tvö, um það bil sjö klukkustundum áður en kappræðurnar hófust. Það kann ekki að hafa verið nóg og komið í bak forsetans í kappræðunum um kvöldið.

Fleiri fjölmiðlar hafa tekið þráðinn upp, þar á meðal Huffington Post . Þar er m.a. bent á að Denver gangi undir nafninu Míluborg (e. Mile High City) þar sem hún standi svo hátt yfir sjó. Þar ku vera 17% minna súrefni en í borgum og bæjum við sjávarsíðuna. Af þeim sökum geti þeir sem komi til borgarinnar fundið fyrir einkennilegheitum á borð við höfuðverk og svima auk þess að geta átt erfitt með andardrátt.

Hér má lesa nánar um háfjallaveikina, sem hugsanlega kann að skýra afleita frammistöðu Obama í kappræðunum á miðvikudagskvöld.

Hér má sjá brot úr fyrstu kappræðum þeirra John F. Kennedy og RIchard Nixon árið 1960. Þetta var fyrsta skiptið sem kappræðum var sjónvarpað.