Þingflokkur framsóknarmanna hefur lagt fram á Alþingi þingsályktunartillögu um aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda íslenskra heimila og atvinnulífs. Fyrsti flutningsmaður er Birkir J. Jónsson.

Í tillögunni má m.a. finna hugmynd framsóknarmanna um 20% niðurfellingu skulda heimila og fyrirtækja. Þar segir m.a. um niðurfellingu skulda fyrirtækja að raunhæfast sé að láta eitt yfir öll fyrirtæki ganga.

„Það er æskilegast hvort sem um er að ræða mjög illa stödd, sæmilega stödd eða vel stödd fyrirtæki," segir í greinargerðinni.

Fyrirtæki sem sé mjög illa statt fjárhagslega verði  líklega gjaldþrota hvort sem það fær 20% skuldaniðurfellingu eða ekki. „Það felst því enginn skaði í því fyrir kröfuhafann að gefa eftir 20% skuldarinnar, enda eru þeir peningar líkast til hvort eð er tapaðir," segir í greinargerðinni.

„Fyrir sæmilega stæð fyrirtæki getur 20% skuldaniðurfelling hins vegar skipt sköpum (samhliða vaxtalækkun). Þau geta þá haldið áfram rekstri og komist hjá því að segja upp fólki. Vel stödd fyrirtæki sem fá skuldaniðurfellinguna eru hins vegar ekki síður mikilvæg. Það eru fyrirtækin sem munu þá hafa eigið fé til uppbyggingar, þ.e. til að kaupa önnur félög (m.a. þau sem fara í þrot), standa að nýsköpun og stuðla að uppbyggingu atvinnulífsins."

Tillögu framsóknarmanna má í heild finna hér.