*

laugardagur, 29. janúar 2022
Innlent 7. júlí 2021 11:10

Framsókn sækir í sig veðrið

Framsóknarflokkurinn eykur fylgi sitt um 3,5% í síðustu mælingum MMR en fylgi hinna ríkisstjórnarflokkanna minnkar.

Snær Snæbjörnsson
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.
Haraldur Guðjónsson

Fram­sóknar­flokkurinn er há­stökkvarinn í síðustu fylgis­mælingu MMR sem gerð var á tíma­bilinu 4. til 14. júní síðast­liðinn. Flokkurinn mældist þá með 8,8% fylgi en mælist nú með 12,3% fylgi.

Fylgi Sjálf­stæðis­flokksins minnkar um 1,6% sam­kvæmt nýjustu mælingum og mælist 25,4% miðað við 27% frá fyrri könnun sem var gerð um miðjan júní. Jafn­framt lækka Vinstri græn um 0,5% og mælast með 11,9% fylgi. Þrátt fyrir að fylgi ríkis­stjórnar­flokkanna, að Fram­sóknar­flokknum undan­skildum, hafi lækkað jókst stuðningur við ríkis­stjórnina um 1,2% og mælist nú 54,9%.

Þá lækka Píratar um tæpt prósentu­stig og mælast nú með 12,2% fylgi miðað við 13,1% frá fyrri könnun. Þá lækkar Sam­fylkingin um 0,6% og mælist með 11,2% fylgi og Mið­flokkurinn lækkar sömu­leiðis líka og mælist með 6,6% fylgi miðað við 7,3% í síðustu könnun.

Við­reisn sækir í sig veðrið og mælist með 9,1% fylgi og hækkar um 1,3% frá síðustu könnun. Fylgi Flokks fólksins, með 5,5% fylgi, og Sósíal­ista­flokks Ís­lands, með 5,3% fylgi, helst ó­breytt.

Stikkorð: MMR fylgi