Rétt rúmur helmingur landsmanna (55,6%) vill að stjórnvöld herði lög um kaup útlendinga á jörðum hér á landi, samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2. Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að eldra fólk var í meirihluta þeirra sem meiri takmarkanir. Í aldurshópnum 50 ára og eldri voru 62,8 prósent fylgjandi frekari hömlum, en 37,2 prósent á móti. Í aldurshópnum 18 til 49 ára var naumur minnihluti hins vegar fylgjandi slíkum hömlum, 49,1 prósent, en 50,9 prósent voru andvíg.

Um síðustu áramót áttu útlendingar 28 jarðir að fullu og hluta í 73 jörðum. Jarðir að fullu í eigu útlendinga eru 0,37 prósent af öllum jörðum hér á landi.

Í skoðanakönnuninni kemur fram að 42,9% þeirra sem styðja Samfylkinguna telja þörf á því að herða reglurnar og er stuðningurinn við hertar kvaðir hvergi minni. Harðari eru Framsóknarmenn en 66,3% þeirra sem styðja flokkinn telja að herða þurfi lögin.

Konur eru frekar á þeirri skoðun að auka verði hömlurnar, 61,3 prósent kvenna eru þeirrar skoðunar samanborið við 50,1 prósent karla.

Hringt var í 1.329 manns þar til náðist í 800 samkvæmt lagskiptu úrtaki miðvikudaginn 27. janúar og fimmtudaginn 28. janúar. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni og hlutfallslega eftir búsetu og aldri. Spurt var: Vilt þú að settar verði frekari hömlur á rétt útlendinga til að kaupa land á Íslandi? Alls tók 83,1 prósent afstöðu til spurningarinnar.