Framtakssjóður Íslands hefur selt allan hlut sinn í Fjarskiptum, móðurfélagi Vodafone. Sjóðurinn átti tæplega 66,1 milljónir hluta í félaginu, eða um 19,7%. Kaupandi að einhverju hluta þessara bréfa er Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, en í tilkynningu til Kauphallarinnar kemur fram að sjóðurinn hafi keypt 27,3 milljónir hluta. Á LSR því núna 42,6 milljónir hluta í Fjarskiptum, eða um 12,5% hlutafjár.

Enn á eftir að koma í ljós hverjir keyptu þær 38,8 milljónir hluta í Fjarskiptum sem eftir standa af því hlutafé sem Framtakssjóðurinn átti fyrir.

Söluandvirði bréfanna fyrir Framtakssjóðinn hefur verið um 2,3 milljarðar króna og kaupverð LSR á sínum hluta hefur verið um 946 milljónir króna, en í báðum tilfellum er miðað við gengið 34,7.

Fjarskipti voru skráð á markað í desember 2012 að undangengnu útboði. Útboðsgengið var 31,5 krónur á hlut og nemur hagnaður Framtakssjóðsins á því að selja bréfin nú en ekki þá um 211,5 milljónum króna.