Framtakssjóður Íslands (FSÍ) vildi ekki tjá sig um efni fréttar IntraFish um sölu á rekstri Icelandic Group í Þýskalandi og Frakklandi, þegar Viðskiptablaðið leitaði eftir því. „Við tjáum okkur ekki efnislega um orðróm á markaði eða einstakar fréttir," segir Pétur Þ. Óskarsson upplýsingafulltrúi FSÍ. FSÍ er stærsti eigandi Icelandic Group.

Greint var frá því á vef Viðskiptablaðsins í gær að sjávarútvegsfyrirtækið Pacific Andes er nærri því að ljúka við kaup á verksmiðjum og rekstri Icelandic Group í Frakklandi og í Þýskalandi, samkvæmt heimildum vefmiðilsins IntraFish.

Pétur segir að FSÍ tjái sig ekki efnislega um orðróm á markaði eða einstakar fréttir. „Þessi mál eru í faglegu ferli. Eins og fram hefur komið réð Icelandic Group Bank of America Merrill Lynch fyrr á árinu sem ráðgjafa við mat á stefnu félagsins og þeim kostum sem félagið hefur. Meðal þeirra kosta er sala eigna úr samstæðunni og möguleikar á sölu á hlut í félaginu.  Fyrirtæki í alþjóðlegum sjávarútvegi og fjárfestar hafa sett sig í samband við Bank of America og vinnur bankinn úr þeim málum,“ sagði Pétur sem vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið.