Latibær er líklega eitt besta dæmið um umsvifamikla framleiðslu á sjónvarpsefni.

Þrátt fyrir langa og oft á tíðum vandræðalega hrakfallasögu Latabæjar er búið að reisa bæinn við og nú standa yfir tökur á þriðju seríu þáttanna.

Hér er um að ræða tveggja milljarða króna innspýtingu inn í íslenskt hagkerfi og langstærsti hluti starfsmanna er íslenskur.

Íslendingar hafa auðvitað framleitt kvikmyndir í áratugi, misgóðar auðvitað. Frá árinu 2000 hafa verið framleiddar um 70 íslenskar kvikmyndir og þar af um 20 á sl. 2 árum. Íslenskar kvikmyndir eru líka farnar að vekja meiri athygli erlendis, sem síðan eykur möguleikana á því að þær skili auknum tekjum. Eitt besta dæmið er bandaríska kvikmyndin Contraband í leikstjórn Baltasar Kormáks, en myndin er endurgerð kvikmyndarinnar Reykjavík—Rotterdam sem kom út árið 2008.

Þá hafa Hetjur Valhallar, Borgríki og Svartur á leik jafnframt vakið mikla athygli á síðustu mánuðum þó lítið sé í hendi með sýningarrétt erlendis og tekjur í framhaldinu. Allt þetta einskorðast að sjálfsögðu ekki bara við kvikmyndir. Mikil gróska hefur verið í íslenskri þáttagerð síðustu ár og allt stefnir í að svo verði áfram. Þá hefur líka verið gróska í öðrum þáttum kvikmyndaframleiðslu. Þannig hefur íslenska fyrirtækið Framestore, svo dæmi sé tekið, sinnt mikið af tæknibrellum (m.a. í Contraband) fyrir íslenska og erlenda aðila. Sjálfsagt væri hægt að telja upp langan lista yfir þetta allt saman en hér er látið staðar numið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.