Franska Þjóðfylkingin, betur þekkt sem Front National, sigraði í fyrstu kosningum til sveitarstjórnar í Frakklandi í gær. Seinni umferð kosninganna fer fram þann 13. desember, en allt útlit er fyrir að einvígi verði háð milli Þjóðfylkingar Marine Le Pen og Repúblikanaflokks Nicolas Sarkozy.

Flokkurinn er þjóðernis- og hægrisinnaður, og tekur harða afstöðu gegn því að hleypa flóttafólki inn í Frakkland. Front National vill einnig auka fjárveitingar til löggæslukerfisins, og er mótfallinn evrunni. Auk þess tekur hann íhaldssama afstöðu gegn samkynja hjónaböndum og ættleiðingum samkynja para.

Kosningarnar eru þær fyrstu sem haldnar eru í Frakklandi eftir að ISIS gerði hryðjuverkaárás í París þann 13. nóvember síðastliðinn, en 130 manns létust í árásinni. Ekki er ólíklegt að árásirnar hafi haft áhrif á niðurstöður kosninganna, en formaður flokksins, Marine Le Pen, hefur verið afdráttarlaus í skoðun sinni á því að tengsl séu milli flóttamanna og hryðjuverkaárásanna.

Niðurstöður kosninganna voru á þann veg að Front National hlaut 30% atkvæðanna, meðan repúblikanaflokkur fyrrverandi forseta Frakklands Nicolas Sarkozy var með 27% atkvæða. Sósíalistaflokkur Francois Hollande, sem er sitjandi forseti landsins, var með 22% fylgi.