Jerome Kerviel, miðlarinn sem hefur verið ásakaður um að tapa 4,9 milljörðum evra fyrir Société Générale, hefur verið handtekinn, að því er Bloomberg hefur eftir saksóknara í París. Kerviel, sem er 31 árs gamall, var yfirheyrður í gær í húsakynnum efnahagsbrotadeildar lögreglunnar í París. Hann verður í haldi þar til síðar í dag nema vistin verði lengd um einn sólarhring, eins og heimild er til.

Société Générale, sem er annar stærsti banki Frakklands að markaðsvirði, afhenti lögreglunni upplýsingar um Kerviel í gær. Að sögn bankans varð hann fyrir tapinu, sem er hið mesta í bankaheiminum frá upphafi, vegna þess að Kerviel tók stöður í framvirkum samningum á evrópskar hlutabréfavísitölur. Kerviel hélt stöðunum leyndum fyrir bankanum.